top of page

Rjómalagað pappardelle með sveppum og nautahakki

Updated: Jun 26, 2019

Stundum þýðir ekkert annað en að drekkja sér í kolvetnum og þá er ekkert betra heldur en góður pastaréttur. Þessi hérna slær ekki slöku við og er með þeim ljúffengari sem völ er á. Sveppir, beikon, rjómi og gott pasta. Hvað getur klikkað?


Eins og matgæðingar vita þá er pasta ekki bara pasta og getur verið töluverður gæðamunur á pasta eftir tegundum sem hefur gríðarleg áhrif á lokaútkomu réttsins og því um að gera að vanda valið! Hérna notast ég við Pappardelle með eggjum frá framleiðandanum Filotea, sem fæst í Hagkaup, og það er engin lygi að þetta er eitt það besta sem ég hef látið ofan í mig í langan tíma.


Það má vissulega nota hvaða pasta sem er í þessa uppskrift, en endilega látið eitthvað gott eftir ykkur.

Fyrir 4:

Ungnautahakk, 500 g

Pappardelle, 250 g / Filotea, fæst í Hagkaup

Sveppir, 200 g

Laukur, 100 g

Beikon, 3 sneiðar

Hvítlaukur, 2 geirar

Rauðvín, 60 ml

Tómatpúrra, 30 ml

Kjúklingakraftur, 10 ml / Bong

Kjötkraftur, 10 ml / Oscar

Herbs de Provance, 10 ml / Pottagaldrar

Ítalskt pastakrydd, 10 ml / Pottagaldrar

Rjómi, 100 ml

San marzano tómatar, 1 dós / Mutti

Parmesan ostur, 30 g + meira með matnum

Basil ferskt, 5 g

 
  1. Saxið lauk, skerið beikon í litla bita, grófsaxið hvítlauk og rífið sveppina í grófa bita.

  2. Brúnið hakkið vel við háan hita, helst í steypujárnspotti og færið það svo á disk.

  3. Lækkið hitann aðeins og bætið beikoninu út í pottinn. Steikið beikonið þar til það er farið að taka smá lit og bætið þá sveppunum út í og steikið í nokkrar mín. Bætið lauknum út í ásamt smá salti og steikið áfram þar til laukurinn er farinn að mýkjast og bætið að lokum hvítlauknum út í og steikið í um 2 mín.

  4. Bætið rauðvíni út í og sjóðið það niður í smástund. Bætið næst við tómatpúrru og steikið í smástund.

  5. Bætið við hakki, kjötkrafti, kjúklingakrafti, Herbs de Provance, Ítölsku pastakryddi og niðursoðnum tómötum. Hakkið tómatana saman við kjötið með sleif eða spaða og bætið við um 1 tsk af flögusalti og smá svörtum pipar. 

  6. Lækkið hitann svo það rétt kraumi í pottinum og látið svo malla undir loki í 30 mín.

  7. Rífið parmesan, saxið basil og sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkanum.

  8. Bætið við rjóma og rífið parmesan ost út í pottinn og látið malla þar til sósan þykkist þér að skapi. Ef sósan er of þykk er gott að að bæta svolitlu af pastavatni út í pottinn eftir að pastað er soðið og láta sjóða í smástund, en sterkjan í pastavatninu hjálpar til við að mynda góða sósu sem loðir vel við pastað.

  9. Hrærið basil og pasta saman við réttinn og smakkið til með salti og pipar.

  10. Berið fram með fersku salati og toppið með meira af rifnum parmesan osti og fersku basil.

Comments


bottom of page