top of page

Rjómalagað kjúklingapasta með ristuðum pankó raspi

Updated: Feb 4, 2019

Ljúffengt rjómalagað kjúklingapasta með pestó, rjómaosti, fullt af parmesan og svo toppað með ristuðum pankó raspi sem gerir það mjög skemmtilegt undir tönn.


Þessi uppskrift er búin að slá í gegn aftur og aftur hérna í Laugardalnum og er orðinn fastur gestur á matseðlinum, enda kjörið helgarpasta!


Að bæta við allt að 2 dl af pastavatni hljómar kannski eins og sósan verði allt of þunn en galdurinn er að láta hana sjóða í aðeins og þá veldur sterkjan sem situr eftir í vatninu frá pastanu því að sósan þykkist passlega og þekur pastað vel.

Fyrir 2-3:

Kjúklingabringur, 2 stk (sirka 350 g)

Gnocchi pasta, 180 g

Laukur, 120 g

Hvítlauksrif, 1 stk

Roasted red pepper pestó frá Sacla, Hálf krukka (95 g)

Tómatpúrra, 30 ml

Rjómi, 100 ml

Rjómaostur, 50 g

Pankó brauðraspur, 20 g

Kjúklingakraftur (duft), 5 ml

Kjötkraftur (duft), 2,5 ml

Ítalskt pastakrydd (Pottagaldrar), 10 ml

Parmesan ostur, 30 g + aðeins meira í lokin ofan á réttinn að sjálfsögðu

Spínat, 50 g

Basil, 5 g

 
  1. Ristið pankó brauðraspinn á heitri pönnu þar til hann er fallega gylltur.

  2. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka en takið frá 2 dl af pastavatni áður en vatnið er sigtað frá pastanu.

  3. Skerið kjúklingabringurnar í munnbitastærðir. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er fulleldaður. Setjið á disk og geymið til hliðar.

  4. Saxið lauk og steikið á pönnu við miðlungshita þar til hann er glær og mjúkur. Pressið hvítlauksrif út á pönnuna og steikið í um 1 mín. Bætið næst tómatpúrru og pestó út á pönnuna og steikið í 1 mín. Bætið rjóma, rjómaosti, kjúklingakrafti, kjötkrafti og ítölsku pastakryddi út á pönnuna og látið malla í nokkrar mín.

  5. Hækkið hitann og bætið pastavatninu sem tekið var til hliðar út á pönnuna í nokkrum skömmtum, hrærið vel á milli og látið malla þar til sósan þykkist hæfilega.

  6. Lækkið hitann í lága stillingu, bætið kjúklingnum út á pönnuna ásamt spínati og hrærið þar til spínatið er búið að mýkjast. Smakkið til með salti og pipar.

  7. Bætið pastanu út á pönnuna, saxið basil og rífið parmesan og hrærið saman við réttinn.

  8. Toppið réttinn með ristuðum pankó raspi og parmesan og berið fram með fersku salati til hliðar.


Comments


bottom of page