top of page

Ribeye steik með parmesansósu og bökuðu grænmeti

Það er fátt betra en að gera vel við sig og sína með góðri steik og hér er ein góð uppskrift í safnið.


Aðalstjarnan hér er parmesansósan sem er örlítið frábrugðin þessum hefðbundnu rjómasósum sem maður er vanur, en hún smellpassar með kjötmiklu bragðinu af ribeye steikinni og ofnbakaða grænmetinu.


Sprotakál eða broccolini eins og það heitir á ensku fæst oftast í Costco og ég hef líka einstaka sinnum séð íslenskt sprotakál í Hagkaup, en það má líka bara nota venjulegt spergilkál í staðin.


Fyrir 2:

Ribeye, 2x 250 g

Kartöflur, 300 g

Gulrætur, 150 g

Sprotakál eða spergilkál, 200 g

Perlulaukur, 8 stk

Smjör, 50 g

Hvítlaukur, 3 rif

Hveiti, 2 msk / 15 g

Nautasoð, 250 ml

Rjómaostur, 30 g

Rjómi, 125 ml

Parmesan ostur rifinn, 12 g

Herbs de Provence, 1 tsk

 
  1. Takið kjötið úr ísskápnum um 1 klst áður en á að elda það.

  2. Stillið ofn á 180 °C með blæstri.

  3. Skerið kartöflur í bita, gulrætur í bita/tvennt (fer eftir stærð og þykkt) og skrælið perlulaukana. Veltið grænmetinu upp úr olíu og salti og dreifið yfir ofnplötu með bökunarpappír. Bakið í miðjum ofni í 35-40 mín eða þar til kartöflurnar eru fallega gylltar og stökkar að utan en mjúkar að innan. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.

  4. Bræðið smjör í potti við miðlungshita. Pressið hvítlauksrif út í smjörið hrærið í þar til hvítlaukurinn er farinn að ilma, sirka 2 mín. Bætið hveiti út í pottinn og hrærið stanslaust í sirka 2-3 mín þar til hveitibolla hefur myndast. Pískið nautasoð hægt og rólega saman við hveitibolluna í pottinum og náið upp vægri suðu. Hrærið rjóma, parmesan, rjómaosti og Herbs de Provence saman við. Látið malla við vægan hita og smakið til með salti og ríflegu magni af svörtum pipar. Ef sósan þykkist of mikið má bæta við ögn af rjóma.

  5. Setjið vatn í pott með svolitlu salti og náið upp suðu. Skerið endana af sprotakálinu. Skerið spergilkál í bita ef það er notað í stað sprotakáls. Sjóðið í um 3 mín eða þar til kálið er mjúkt undir tönn.

  6. Nuddið kjötið með smá olíu og ríflegu magni af salti og svolitlum pipar.

  7. Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita og steikið steikurnar í 3-4 mín á hvorri hlið eða þar til kjötið hefur náð 55 °C kjarnhita fyrir medium rare. Þá er gott að notast við kjöthitamæli. Leyfið kjötinu að hvíla í um 5 mín áður en það er borið fram.


Comments


bottom of page