Ég elska tacos, það vita allir sem þekkja mig, og þessi uppskrift mín að rækju tacos trónir mjög ofarlega (ef ekki efst) á listanum yfir bestu tacos sem ég geri.
Bragðmiklar marineraðar risarækjur, ferskt lárperusalat með fetaosti og kóríander að ógleymdu ljúffengu chipotle hrásalatinu gerir þetta að algjörri bragðsprengju!
Fyrir mér er algjört lykilatriði í þessari uppskrift að skera hvíkálið eins þunnt og mögulegt er, en með því verður áferðin á hvítkálinu mun skemmtilegri. Hvítkálið verður mýkra í chipotle sósunni og miklu betra undir tönn heldur en það væri með þykkari skurði. Ef þú átt ekki mandolín þá er kominn tími til þess að fjárfesta í einu slíku. Vissulega er hægt að skera hvítkálið með hníf, en mandolínið gerir þetta verk að leik einum.
Fyrir 2:
Risarækjur, 400 g
Tortilla kökur 6", 8 stk / Santa Maria
Cumin, 1,5 tsk
Hvítlauksduft, 1 tsk
Laukduft, 0,5 tsk
Chiliduft, 0,5-1 tsk / Eftir smekk
Hvítkál, 150 g
Majónes, 2 tsk / Japanskt helst
Sýrður rjómi 10%, 2 tsk
Chipotle mauk, 2 tsk / Santa Maria
Kirsuberjatómatar, 200 g
Hreinn fetaostur, 50 g
Hvítlauksrif, 1 stk
Kóríander, 5 g
Lárpera, 1 stk
Límónusafi, 1 tsk
Radísur, 2 stk
Afþýðið og þerrið risarækurnar. Setjið risarækjur svo í skál með svolítilli olíu, cumin, hvítlauksdufti, laukdufti, chilidufti og 1 tsk af flögusalti. Látið marinerast á meðan unnið er í öðru.
Sneiðið hvítkál eins þunnt og mögulegt er, helst með mandolíni stilltu á fínasta skurðinn. Hrærið majónesi, sýrðum rjóma og chipotle mauki vandlega saman við hvítkálið og smakkið til með salti. Geymið í kæli.
Skerið kirsuberjatómata í litla bita, myljið fetost, saxið kóríander og skerið lárperu í bita. Setjið í skál ásamt límónusafa og skvettu af ólífuolíu. Pressið hvítlauksrif saman við, blandið vel saman og smakkið til með salti.
Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita og steikið rækjurnar í 4-5 mín eða þar til þær eru fulleldaðar.
Hitið tortilla kökur í stutta stund eftir leiðbeiningum á umbúðum og sneiðið radísur í þunnar sneiðar.
Raðið saman chipotle hrásalati, rækjum, lárperusalati og radísum í tortilla köku og toppið með uppáhalds hot sósunni ykkar.
Comments