top of page

Pizza með ítölskum túnfisk, klettasalati og hvítlauksolíu

Updated: Aug 23, 2020

Það þarf ekki að vera flókið að reiða fram gourmet pizzu í miðri viku þegar tíminn er af skornum skammti en þá skiptir líka máli að nota góð hráefni. Sömuleiðis er pizzasteinn ómissandi til að taka pizzuna upp á næsta stig en ég mæli hrikalega mikið með að eiga einn slíkann.


Í þessa pizzu nota ég hágæða ítalskan túnfisk og buffala mozzarella sem er rjómakenndari og bragðmeiri en venjulegur mozzarella. Pizzan er svo toppuð með helling af parmesan, klettasalati og hvítlauksolíu sem gerir þetta að algjörri veislu. Buon appetito!

Súrdeigs pizzadeig, 300 g / Ég notaði deigið frá Brikk bakarí

Pizzasósa, 80 ml

Callipo túnfiskur, 100 g / Fæst í Krónunni, Melabúðinni og Frú Laugu

Buffala Mozzarella, 125 g / Fæst í Krónunni

Rauðlaukur, 1/4 lítill

Klettasalat, 20 g

Parmesanostur, eftir smekk

Hvítlaukur, 1 stórt rif

Ólífuolía, 3 msk

 
  1. Takið deigið úr kæli 2 klst áður en byrjað er að elda.

  2. Forhitið pizzastein í botninum á ofni upp í 250°C með yfir og undirhita.

  3. Pressið hvítlauksrif saman við ólífuolíu og hitið í 30 sek í örbylgjuofni. Skerið rauðlauk í strimla.

  4. Notið hendurnar til þess að fletja pizzabotninn út í um 25 cm hring. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 2 cm af kantinum við sem mestu hnjaski, en þannig er gasinu ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist mun betur.

  5. Dreifið sósu yfir botninn og rífið mozzarellaost yfir. Dreifið túnfisk og rauðlauk yfir og bakið pizzuna svo í 8-10 mín eða þar til kantarnir eru fallega gylltir.

  6. Rífið helling af parmesanost yfir pizzuna og toppið með klettasalati og hvítlauksolíu.

þessi færsla er unnin í samstarfi við Tariello ehf.

Comments


bottom of page