top of page

Pappardelle í chorizo og fennel sósu

Hér er á ferðinni æðislegur og einfaldur pastaréttur sem er skemmtileg tilbreyting frá þessu klassíska bolognese sem maður er svo gjarn á að gera (enda svo gott!).


Chorizo og fennel eru frábær blanda og ég tala nú ekki um þegar smá hvítvín er komið með í spilið! Það skiptir máli að nota góða chorizo pylsu í þennan rétt og þá mæli ég með því að kíkja í heimsókn til Pylsumeistarans í Laugardal.


Buon appetito!

Fyrir 2:

Spænsk chorizo, 125 g / 1 stk, t.d. frá Pylsumeistaranum í Laugardal.

Laukur, 100 g

Fennel, 200 g

Hvítlaukur, 3 rif

Tómatpúrra, 2 msk

Tómatpassata, 2 dl

Hvítvín, 80 ml

Kallo grænmetisteningur, 1 stk / Grænn

Pappardelle eða tagliatelle, 200 g

Steinselja, 5 g

Mozzarellakúlur litlar, 6 stk

 
  1. Skerið fennel í tvennt. Skerið kjarnann svo úr og toppinn frá (geymið grænu laufin til skrauts). Sneiðið fennel þunnt og saxið lauk nokkuð smátt.

  2. Takið utan af chorizo pylsunni og skerið pylsuna í litla bita.

  3. Steikið chorizo við miðlungshita í nokkrar mín þar til fitan í henni hefur og bitarnir byrjaðir að brúnast svolítið. Færið chorizo á disk til hliðar.

  4. Bætið fennel og lauk út á pönnuna ásamt smá salti og steikið þar til grænmetið er farið að mýkjast undir tönn. Pressið hvítlauk út á pönnuna og steikið í stutta stund þar til hvítlaukurinn fer að ilma.

  5. Bætið tómatpúrru út á pönnuna og steikið í stutta stund, bætið því næst hvítvíni út á pönnuna og látið sjóða niður um helming.

  6. Bætið steiktri chorizo út á pönnuna ásamt tómatpassata og grænmetistening. Lækkið hitann svo það rétt kraumi í vökvanum og látið malla undir loki í 15-20 mín.

  7. Setjið vatn í pott ásamt ríflegu magni af salti og náið upp suðu. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum frá framleiðanda en takið 1,5 dl af pastavatni til hliðar áður en vatnið er sigtað frá.

  8. Hækkið hitann undir pönnunni með sósunni og bætið pastavatninu við í nokkrum skömmtum eftur þörfum og látið sjóða vel á milli þar til sósan hefur náð hæfilegri þykkt. Smakkið til með salti.

  9. Bætið pasta út á pönnuna og veltið upp úr sósunni þar til allt hefur blandast vel saman.

  10. Saxið steinselju og hrærið saman við réttinn og rífið mozzarellakúlur yfir rétt áður en maturinn er borinn fram.

  11. Berið fram með góðu hvítlauksbrauði og fersku salati.


Comments


bottom of page