top of page

Hinn fullkomni ostborgari

Fyrir mér er hinn fullkomni ostborgari eldaður á pönnu, úr ungnautahakki með 12-14% fituinnihaldi, með bræddum maribo osti, káli, þunnum sneiðum af lauk, tómatsneiðum, majónesi, tómatsósu og amerísku sinnepi, borinn fram í ristuðu litlu hamborgarabrauði, því það er ekkert sorglegra en hamborgari í of stóru brauði.


Ég elda mína hamborgara á sama máta og td In-N-Out borgarakeðjan í Bandaríkjunum, sem gerir að mínu mati bestu hamborgara í heimi, en sú eldunaraðferð felur í sér að lausmóta buff úr nautahakki, hita steypujárnspönnu á svimandi háan hita og nota svo flatan steikarspaða til þess að fletja borgarann kröftuglega niður á rjúkandi heita pönnuna svo hann verði mjög þunnur og fái sem besta brúnun.


Til þess að fletja borgarann sem best út þarf flatan steikarspaða og svo eitthvað annað til þess að þrýsta niður á steikarspaðann, en ég nota til þess þykkan spartlspaða sem er þægilegt að halda í.


Það er best að elda bara 1 borgara í einu með þessari aðferð og kveikja á viftunni á gufugleypinum því það mun koma svolítill reykur frá pönnunni, en hver borgari tekur ekki nema tæpar 2 mín að verða til. Það er því best að vera búinn að gera allt klárt áður en borgararnir eru steiktir.

Fyrir 2 tvöfalda ostborgara:

Ungnautahakk, 400 g *

Lítil hamborgarabrauð, 2 stk

Maribo ostur, 4 sneiðar

Íssalat eftir smekk

Laukur eftir smekk

Tómatur eftir smekk

Majónes

Tómatsósa

Amerískt Sinnep eftir smekk / Ég mæli með French´s


* Það er best að nota ungnautahakkið frá Norðlenska í þessa uppskrift þar sem því er ekki pakkað í pakkningar með lofttæmi, en þessar lofttæmdu pakkningar þjappa kjötinu of mikið saman og breyta áferðinni.

 
  1. Sneiðið lauk í þunnar sneiðar og tómata í aðeins þykkari sneiðar.

  2. Skiptið hakkinu í 4 parta og lausmótið 100 g kúlur/buff. Því minna sem er átt við kjötið, því mýkri verður borgarinn.

  3. Hitið steypujárnspönnu við frekar háan hita og ristið hamborgarabrauðin þar til þau eru gullinbrún.

  4. Setjið majónes í botninn, tómatsósu og sinnep í efra brauðið og hafið grænmetið klárt til hliðar.

  5. Nuddið ögn af olíu á pönnuna og bíðið þar til hún er rjúkandi heit. Setjið borgara á miðja pönnuna og notið stálspaðana til að fletja borgarann kröftuglega niður þar til hann er um 10 cm að flatarmáli. Saltið kjötið rausnarlega og piprið. Steikið í um 1-1.5 mín áður en þið snúið og setjið ost á kjötið. Setjið lok á pönnuna og bíðið í 20-30 sek þar til osturinn er bráðnaður.

  6. Færið kjötið á tilbúið hamborgarabrauð og endurtakið með restina af buffunum.

  7. Toppið kjötið með grænmetinu og njótið!


Comments


bottom of page