top of page

Einfalt og ofnbakað lúxus kjúklinga linguine með beikoni, pestó og svörtum ólífum

Updated: Jun 18, 2022

Bragðmikill og sérstaklega ljúffengur pastaréttur þar sem ekkert þarf að steikja. Ofninn sér um allt nema að sjóða pasta og maturinn er svo borinn fram í ofnfatinu. Gerist ekki mikið betra en það!


Ég geri oft útgáfur af þessum pastarétt fyrir okkur fjölskylduna og undantekningarlaust fellur þetta vel í kramið hjá öllum fjölskyldumeðlimum. Beikonið og svörtu ólífurnar passa svo einstaklega vel með kjúklingnum og pestóinu. Mæli virkilega mikið með.


Ég notaði 1 pakka af Filotea linguine í þessa uppskrift en mér fynnst það verða hæfilegur skammtur fyrir 4 ásamt góðu salati.

Fyrir 4:

Kjúklingalæri (skinn & beinlaus), 600 g

Töfrakrydd, 2 tsk / Pottagaldrar

Beikonsneiðar, 8 stk

Linguine, 250 g / Ég notaði Filotea sem fæst í svörtum kössum í Hagkaup

Rautt pestó, 75 g / Filippo Berrio

Rjómi, 300 ml

Rjómaostur, 50 g

Herbs de provence, 1 msk

Kjúklingakraftur duft, 1 msk

Hvítlaukur, 3 rif

Svartar ólífur, 30 g

Piccolo tómatar, 100 g / Eða kirsuberjatómatar

Parmesan ostur, 30 g

Basilíka fersk, góð handfylli


  1. Forhitið ofn í 180°C með blæstri.

  2. Dreifið beikonsneiðum yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í 12-15 mín í miðjum ofni. Fylgist vel með eftir 12 mín því þá geta hlutirnir farið að gerast hratt. Takið beikonið til hliðar og skerið í bita.

  3. Setjið kjúklingalæri í skál með olíu og töfrakryddi. Blandið vel saman og látið marinerast í 10-15 mín á meðan beikonið er í ofninum.

  4. Raðið kjúklingalærunum í eldfast mót og bakið í miðjum ofni í 20 mín. Gerið sósuna tilbúna í millitíðinni og setjið vatn í pott ásamt ríflegu magni af salti og náið upp suðu fyrir pasta.

  5. Hrærið saman rautt pestó, rjóma, rjómaost, Herbs de provence og kjúklingakraft. Pressið hvítlauk saman við og smakkið sósuna til með salti. Skerið tómata í tvennt ásamt ólífum.

  6. Hellið sósunni yfir og meðfram kjúklingalærunum þegar 20 mín er liðnar af eldunartíma kjúklingsins. Dreifið ólífum og tómötum yfir réttinn og bakið áfram í aðrar 15 mín (35 mín samtals).

  7. Tímasetjið suðuna á pastanu svo það sé tilbúið 5 mín eftir að kjúklingurinn kemur úr ofninum. Takið frá smá af pastavatni áður en því er hellt frá til þess að þynna sósuna ef þess þarf.

  8. Rífið kjúklinginn niður í sósunni í litla bita með tveimur göfflum. Saxið basilíku. Blandið pasta saman við kjúklinginn og sósuna í fatinu ásamt beikoni, ferskri basilíku og helling af rifnum parmesan osti og svörtum pipar eftir smekk.

  9. Berið fram með góðu salati og t.d. hvítlauksbrauði.Comments


bottom of page