top of page

Ómótstæðilegt kínóa salat með grilluðum risarækjum, basilíku, mangó og lárperu

Létt, ferskt og ómótstæðilegt kínóa salat með grilluðum marineruðum rækjum, basilíku, mangó og lárperu. Saðsöm og holl máltíð sem gefur ekkert eftir í bragði!

Fyrir 4:

Risarækjur, 600 g

Tandoori masala, 20 ml / Kryddhúsið

Hvítlaukur, 2-3 rif

Langir grillpinnar, 5-6 stk

Kínóa, 250 ml

Piccalo tómatar, 200 g

Lárpera, 2 stk

Stórt mangó, 1 stk

Klettasalat, 60 g

Rauðlaukur, 1 stk

Basilíka, 10 g

Steinselja, 10 g

Kóríander, 10 g

Límóna, 1 stk

Hunang, 2 msk

Ólífuolía, 60 ml

Ristuð og söltuð graskersfræ, 50 g


  1. Leggið grillpinnana í vatn svo þeir brenni síður á grillinu.

  2. Afþýðið rækjur og þerrið. Setjið í skál ásamt tandoori masala, ólífuolíu og pressið hvítlauksrif saman við. Blandið vel saman og látið marinerast í 30 mín. Saltið rækjurnar eftir smekk áður en þær eru þræddar á grillpinna.

  3. Setjið 500 ml af vatni í lítinn pott ásamt svolitlu salti og náið upp suðu. Bætið kínóa út í pottinn, lækkið hitann svo það rétt kraumi í vatninu og sjóðið kínóa undir loki í 15-18 mín. Takið af hitanum og látið standa undir loki í nokkrar mín. Færið svo í stóra skál og látið kólna.

  4. Skerið lárperu, tómata og mangó í bita. Sneiðið rauðlauk eftir smekk í strimla. Saxið kryddjurtir. Bætið út í skálina með kínóa.

  5. Rífið börk af límónu saman við hunang og 60 ml af ólífuolíu. Kreistið sirka 2 msk af límónusafa saman við hunangið og olíuna og pískið vel saman. Hrærið saman við salatið.

  6. Grillið rækjurnar við háan hita í um 2-3 mín á hvorri hlið.

  7. Bætið rækjum, graskersfræjum og klettasalati út í skálina og blandið vel saman. Smakkið til með salti og kreistið að lokum meiri límónusafa saman við eftir smekk.

コメント


bottom of page